Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 375/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 375/2023

Miðvikudaginn 20. september 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 31. júlí 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 23. maí 2023 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2022.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2022 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 484.342 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu og innheimtu með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 23. maí 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 31. júlí 2023. Með bréfi, dags. 2. ágúst 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 23. ágúst 2023, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. ágúst 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að síðasta haust hafi kærandi og maki hennar ákveðið að taka út séreignarsparnað sem kærandi hafi náð að safna sér. Þau hafi talað við starfsmann Tryggingastofnunar sem hafi sagt þeim að þau þyrftu ekki að óttast neina skerðingu. Samkvæmt bréfi frá stofnuninni hafi svo komið í ljós 484.342 kr. skuld sem eigi að greiða í september 2023.

Af 1.432.550 kr. heildarinneign hafi kærandi því fengið 502.538 kr., sem sagt 65% skattur. Dæmi nú hver fyrir sig hvort þetta sé sanngjarnt.

Í kæru sé spurt hvort kærandi hefði sloppið við skerðingu hefði hún beðið til 67 ára aldurs og hvort eiginmaður kæranda, sem sé launþegi í fullu starfi, sleppi við skerðingu.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram kærð sé niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2022.

Breytingar á lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar hafi tekið gildi þann 12. apríl 2023 en þar sem um sé að ræða greiðslur til kæranda á árinu 2022, fyrir umræddar breytingar, þá muni málið vera skoðað út frá eldri lögum að hluta.

Í 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt varðandi hvað skuli teljast til tekna. Til tekna samkvæmt III. kafla laga um almannatryggingar teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað teljist ekki til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tl. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum, sbr. 30. gr. núgildandi laga um almannatryggingar.

Samkvæmt 3. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar segi að þegar um sé að ræða örorkulífeyri þá teljist ekki til tekna, þrátt fyrir 2. mgr. sama ákvæðis, bætur samkvæmt lögum þessum, lögum um slysatryggingar almannatrygginga og lögum um félagslega aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, greiðslur úr skyldubundnum lífeyrissjóðum, séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Í 5. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi sagt að til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skyldi leggja áætlaðar tekjur greiðsluþegans á bótagreiðsluárinu. Þá hafi sagt að áætlun um tekjuupplýsingar skyldi byggjast meðal annars á nýjustu upplýsingum frá greiðsluþega, sbr. 39. gr. laganna þar sem hafi sagt að greiðsluþega væri skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem gætu haft áhrif á bætur eða greiðslur.

Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. þágildandi laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða einstaklingi sem fái örorkulífeyri samkvæmt lögum um almannatryggingar sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu ef sýnt þyki að hann geti ekki framfleytt sér án þess. Við mat á því hvort lífeyrisþegi geti framfleytt sér án sérstakrar uppbótar skuli miða við að heildartekjur hans séu undir tiltekinni fjárhæð á mánuði. Í 3. mgr. ákvæðisins sé farið yfir þau tekjuviðmið sem miðað sé við svo einstaklingur geti átt rétt á sérstakri uppbót. Þá segi í 4. mgr. að til tekna samkvæmt ákvæðinu teljist allar skattskyldar tekjur, þar á meðal bætur almannatrygginga og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, sem og erlendar tekjur sem ekki sé taldar fram hér á landi.

Í II. kafla laga um tekjuskatt sé fjallað um skattskyldar tekjur. Í 7. gr. segi að skattskyldar tekjur teljist með þeim undantekningum og takmörkunum, er síðar greinir, hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skipti ekki máli hvaðan þær stafa eða í hvaða formi sem þær séu. Í framhaldinu sé talað um í A-1ið 7. gr. laganna að lífeyrir falli meðal annars þar undir.

Í 3. mgr. 33. gr. núgildandi laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 34. gr. núgildandi laga um almannatryggingar. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Málavextir séu þeir að allt árið 2022 hafi kærandi verið með örorkulífeyri, aldurstengda örorkuuppbót, tekjutryggingu og sérstaka uppbót til framfærslu örorkulífeyrisþega. Haustið 2022 hafi kærandi ákveðið ásamt maka sínum að taka út séreignarsparnað sem kærandi hafi náð að safna sér, áður en hún hafi orðið öryrki. Í kæru sé tekið fram að talað hafi verið við Tryggingastofnun og þeim tjáð að þau þyrftu ekki að óttast skerðingu vegna úttektar sparnaðarins.

Uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2022 hafi leitt til 484.342 kr. ofgreiðslu að teknu tilliti til greiddrar staðgreiðslu. Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast sé sú að við samkeyrslu tekjuupplýsinga af skattframtali 2023 vegna tekjuársins 2022, hafi komið í ljós að tekjur kæranda hafi haft áhrif á sérstaka uppbót til framfærslu sem kærandi hafi fengið greidda á árinu 2022, sem hafi leitt til umræddrar ofgreiðslu. Sú niðurstaða uppgjörsins sé kærð.

Ágreiningur málsins snúist nánar tiltekið um eðli tekjutengdra réttinda hjá Tryggingastofnun. Gerð sé athugasemd við að stofnunin endurkrefji kæranda um ofgreidd réttindi vegna úttektar á séreignarsparnaði á árinu 2022, sem hafi haft áhrif á greiðslu sérstakrar uppbótar.

Í 2. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi sagt að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teldust tekjur samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teldist til tekna og tiltekinna frádráttarliða í 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga eða takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum. Í þessu ákvæði hafi því verið tilgreint við hvaða tekjur Tryggingastofnun skyldi miða útreikning og endurreikning bóta og jafnframt hafi verið tilgreindar þær undantekningar sem stofnuninni beri að hafa hliðsjón af við þá framkvæmd. Til grundvallar bótaútreikningi hafi verið lagðar áætlaðar tekjur bótagreiðsluársins í samræmi við 5. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar. Tekjurnar hafi verið áætlaðar á grundvelli upplýsinga frá kæranda í samræmi við sama ákvæði. Í ákvæðinu sé tekið fram í 3. mgr. að séreignarlífeyrissparnaður teljist ekki til tekna og hafi því ekki áhrif á örorkulífeyri. Hins vegar segi í 3. mgr. 9. gr. þágildandi laga um félagslega aðstoð að samkvæmt ákvæðinu teljist til tekna allar skattskyldar tekjur og hafi því áhrif á greiðslu sérstakrar uppbótar. Þar undir falli lífeyrir.

Í bréfi, dags. 28. janúar 2022, hafi kærandi verið upplýstur um tillögu að tekjuáætlun fyrir árið 2022. Í bréfinu hafi verið minnt á skyldu kæranda til þess að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem gætu haft áhrif á greiðslur frá Tryggingastofnun og að tekjuáætlanir væru á ábyrgð einstaklinga.

Eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur greiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda sé Tryggingastofnun skylt að endurreikna fjárhæðir greiðslna á grundvelli upplýsinga um tekjur greiðsluþega á árinu sem liggi þá fyrir, sbr. 2. mgr. 33. gr. núgildandi laga um almannatryggingar. Hafi Tryggingastofnun ofgreitt bætur til greiðsluþega sé stofnuninni skylt að endurkrefja það sem hafi verið ofgreitt í samræmi við 34. gr. laganna. Meginreglan sé því sú að ef tekjur þær sem lagðar séu til grundvallar endurreikningi reynist hærri en tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir og ofgreiðsla stafi af því að bótaþegi hafi ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna eða aðrar breyttar aðstæður þá skuli sú ofgreiðsla endurkrafin.

Í 2. mgr. 9. gr. þágildandi laga um félagslega aðstoð sé farið yfir hverjar heildartekjur lífeyrisþega megi vera til þess að eiga rétt á sérstakri uppbót. Á árinu 2022 hafi verið miðað við 362.478 kr. ef lífeyrisþegi fengi greidda heimilisuppbót og 288.283 kr. ef lífeyrisþegi fengi ekki greidda heimilisuppbót eftir hækkun sem hafi orðið 1. júní 2022. Þá hafi verið miðað við mat á því hvort lífeyrisþegi geti framfleytt sér án sérstakrar uppbótar. Við úttekt séreignarsparnaðarins hafi kærandi farið upp fyrir þá upphæð sem sérstök uppbót sé miðuð við.

Í kæru sé vísað til þess að kærandi hafi hringt og talað við starfsmann Tryggingastofnunar um séreignarsparnað og í kæru segi að sá starfsmaður hafi tjáð þeim að ekki þyrfti að óttast skerðingu á lífeyrisgreiðslur ef tekinn yrði út séreignarsparnaður. Erfitt sé að vita með vissu hvað hafi farið fram í umræddu samtali kæranda og starfsmanns Tryggingastofnunar og því erfitt að segja til um hvort þeim hafi verið tjáð að séreignasparnaður hafi engin áhrif. Þá hvíli sú skylda á einstaklingum að tilkynna um breytingar sem verði á tekjum þeirra. Ekki væri hægt að fallast á að símtalið sem hafi farið fram hafi verið tilkynning um slíkt þar sem verið hafi verið að spyrja um áhrif þess ef séreignarsparnaður yrði tekinn út. Af þeim sökum hefði kærandi þurft að senda inn nýja tekjuáætlun eða óska eftir breytingum á tekjuáætlun eftir að séreignarsparnaður hafi verið tekinn út og þá hefðu greiðslur til kæranda verið endurreiknaðar.

Stofnunin vilji þó benda kæranda á að þrátt fyrir að endurreikningur leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar sé heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Skuli þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn. Hægt sé að sækja um niðurfellingu ofgreiðslukröfu á Mínum síðum á tr.is.

Kærð ákvörðun sé í samræmi við lög og reglur sem gildi um uppgjör og endurreikning tekjutengdra bóta. Tryggingastofnun fari því fram á að ákvörðun stofnunarinnar frá 23. maí 2023 um niðurstöðu endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðsla ársins 2022 verði staðfest af nefndinni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2022.

Kærandi fékk greiddan örorkulífeyri frá Tryggingastofnun á árinu 2022. Samkvæmt þágildandi 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í þágildandi 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. greinarinnar segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með tilteknum undantekningum. Á grundvelli 3. mgr. 33. gr. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Leiði endurreikningur í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 34. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Á grundvelli 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð er heimilt að greiða örorkulífeyrisþega sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án hennar. Til þess að eiga rétt á uppbót þurfa heildartekjur að vera undir ákveðinni fjárhæð sem hefur verið hækkuð árlega. Til tekna teljast allar skattskyldar tekjur, sbr. 3. mgr. sömu greinar, þar á meðal greiðslur úr séreignarsparnaði. Í 4. mgr. 9. gr. laganna kemur fram að við útreikning sérstakrar uppbótar á lífeyri vegna framfærslu samkvæmt 2. mgr. skuli telja til tekna 65% af tekjum lífeyrisþega. Bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar skuli þó teljast að fullu til tekna við útreikning uppbótarinnar, að því undanskildu að ekki skuli telja til tekna 50% af fjárhæð aldurstengdrar örorkuuppbótar samkvæmt þágildandi 21. gr. laga um almannatryggingar og 95% af fjárhæð tekjutryggingar samkvæmt þágildandi 22. gr. sömu laga.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 28. janúar 2022, var kæranda send tekjuáætlun vegna ársins 2022 þar sem gert var ráð fyrir 2.371 kr. í fjármagnstekjur. Kærandi gerði ekki athugasemdir við þá áætlun og voru bótaréttindi því reiknuð og bætur greiddar út frá þessum tekjuforsendum. Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda vegna tekjuársins 2022 reyndist kærandi vera með 1.432.550 kr. úr séreignarsjóði og 22.368 kr. í fjármagnstekjur. Endurreikningur Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins leiddi í ljós 484.342 kr. ofgreiðslu á árinu 2022 að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Samkvæmt framangreindu reyndust tekjur kæranda vera hærri á árinu 2022 en gert hafði verið ráð fyrir. Um var að ræða tekjur úr séreignarsjóði sem ekki hafði verið gert ráð fyrir árinu. Greiðslur úr séreignarsjóði teljast til tekna við útreikning sérstakrar uppbótar til framfærslu samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð. Samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð var tekjuviðmið sérstakrar uppbótar á árinu 2022 þegar einstaklingur fær ekki greidda heimilisuppbót 265.044 kr. á mánuði. Á árinu 2022 voru mánaðartekjur kæranda yfir þeirri fjárhæð og átti hún þar af leiðandi ekki rétt á sérstakri uppbót sökum tekna.

Ástæða þess að endurkrafa myndaðist á hendur kæranda er að umræddur tekjustofn var vanáætlaður í tekjuáætlun. Tryggingastofnun greiðir tekjutengdar bætur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi greiðsluþega. Þá ber stofnuninni lögum samkvæmt að endurreikna bætur með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og innheimta ofgreiddar bætur.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi fengið rangar leiðbeiningar hjá ráðgjafa Tryggingastofnunar í tengslum við úttekt á séreignarlífeyrissparnaði sem hafi leitt til kærðrar ofgreiðslu. Engin gögn liggja fyrir sem staðfesta það. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur þó rétt benda kæranda á að hún getur freistað þess að leggja fram beiðni um niðurfellingu ofgreiddra bóta til Tryggingastofnunar á grundvelli undanþáguákvæðis 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Þar kemur fram að heimilt sé að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Þá skuli einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna greiðsluþega og þess hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun um endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum ársins 2022.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, á árinu 2022, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum